Saga

Verslunarsaga frá 1934

Verslunin Drangey á langa sögu verslunar með vefnaðarvöru, hljóðfæri, nótur, töskur, hanska og seðlaveski og hafa þrír af fjórum eigendum hennar heitið María.

Verslunin Drangey byrjaði sem matvöruverslun á Grettisgötu árið 1934. Árið 1936 keypti María Samúelsdóttir Ammendrup verslunina af dánarbúi Páls Þorkelssonar og var verslunin í eigu fjölskyldunnar í 59 ár. Árið 1941 flutti verslunin í gerbreyttri mynd á Laugaveg 58 og aðallega verslað með vefnaðarvöru. Tage Ammendrup, sonur Maríu, varð hluthafi í versluninni og árið 1945 er bætt við leðurvörum, plötum og hljóðfærum. Í tengslum við búðina var plötuútgáfan Íslenskir tónar í húsinu og á lagernum var upphaflega upptökustúdíó. Plötur og nótur hurfu úr hillum um 1965 og var þá einkum verslað með töskur, seðlaveski og útsaum.

María Magnúsdóttir Ammendrup, tengdadóttir Maríu, tók við rekstrinum 1975 og voru leðurvörur þá í öndvegi. Árið 1995 kaupir María G. Maríusdóttir verslunina og er því þriðja Marían sem á Drangey. Vöruúrvalið er áfram töskur, hanskar, seðlaveski og fleira.

Þegar verslunarmiðstöðin Smáralind er að rísa, er ákveðið að færa út kvíarnar og innrétta þar verslunarrými. Þann 10.október 2001, vígsludag Smáralindar, opnaði Drangey þar aðra verslun með töskur, seðlaveski, hanska og fleira. Árið 2003 er ákveðið að breyta til og taka inn heimilis- og gjafavörur meðfram töskum, hönskum og seðlaveskjum. Í apríl sama ár er báðum búðunum breytt í þá veru við mikla ánægju viðskiptavina.

Sumarið 2004 verða þáttaskil í sögu Drangeyjar þegar verslunin flytur sig alfarið úr gamla bænum í Smáralindina. Eigendum til mikillar ánægju, kom strax í ljós að viðskiptavinir verslunarinnar héldu tryggð við þá og létu flutninginn ekki hafa áhrif á sig. Seinni part ársins 2006 var enn blásið í lúðra. Heimilisgjafavaran vék úr hillum og ákveðið að gefa nýjum hörðum og fisléttum ferðatöskum frá þýska gæðamerkinu TITAN meira rými og einnig aukið við úrval af leður og skinn yfirhöfnum.

Nóvember 2014 fagnaði verslunin Drangey 80 ára afmæli. Í tilefni þess var framleidd afmælisútgáfa af vinsælustu seðlaveskjunum síðustu ára. Þau má finna í liðnum seðlaveski á heimasíðunni www.drangey.is Áherslan er enn lögð á töskur, seðlaveski, hanska, (sem eru sérframleiddir fyrir Drangey) ferðatöskur, skartgripaskrín, tölvu- og skjalatöskur og fleira.

Í mars 2020 flutti verslunin Drangey á netið og lokaði búðinni í Smáralind. Áfram er verslað með allskonar töskur, dömu- og herra leðurhanska og korta- og seðlaveski. Á drangey.is er hægt að kaupa góðar vörur sem fyrr. Viðskiptavinir geta nú fylgt Drangey netverslun á Instagram og Facebook og einnig skrifað tölvupóst á drangey@drangey.is María Maríusdóttir er áfram eigandi og eftir 25 ára reynslu hefur hún þarfir viðskiptavina sinna í fyrirrúmi.